Halló, halló!
Langt síðan ég sendi þér síðast lettersbréf. Rúmlega þrjú ár ef við viljum vera nákvæm. Svona gerist bara, við skulum ekki dvelja við það frekar.
Í dag færi ég þér sögu af banatilræði í Reykjavík frá 1911. Neðst í þessu bréfi er tengill til að losna úr þessari áskrift ef þér hefur snúist hugur á þessum ÞREMUR ÁRUM. Einnig er þar tengill á eldra efni ef þú hefur alveg gleymt afhverju þér datt í hug að gerast áskrifandi að þessu.
Ég lofa að það mun ekki líða svona langt þar til næst.
(Ef þú vilt frekar lesa þessa langloku í vafranum þínum þá er hér tengill: .
13. nóvember 1911 var mánudagur. Á pósthúsinu í Reykjavík var sending, kannski bréf, kannski böggull, ætluð franska konsúlnum Jean-Paul Brillouin. Konsúllinn, sem hafði lokið við að byggja hús sitt (Höfða) við Félagstún tveimur árum fyrr, hafði þrennt í starfsliði sínu og öll báru þau nöfn sem byrjuði á S.
Signe Sundbye - 26 ára
Sigríður Magnúsdóttir - 22 ára
Sigurður Guðmundsson - 22 ára
Úr varð að Sigurði var falið að sækja sendinguna. Hann kom aftur í Höfða um áttaleytið um kvöldið og sagði farir sínar ekki sléttar. Svona sagði blaðið Ingólfur frá í útgáfu sinni 14. nóvember, degi síðar:
En er hann var kominn á heimleið og beygði niður veginn sem liggur frá Laugaveginum og niður að húsi konsúlsins á Félagstúni, sátu fyrir honum tveir menn við efra hliðið á vegi hr. Brillouins. Þegar Sigurður var kominn inn um hliðið, hlupu mennirnir til, og voru báðið grímuklæddir; fór annar framan að honum og hinn að aftan. Sigurður spurði þá hvað þeir vildu. Þeir svöruðu honum ekki, en annar þeirra ávarpaði félaga sinn, að því er Sigurði virtist á norsku og heyrðist honum hann segja: „Er det ham“? Þá svaraði hinn, og heyrðist Sigurði hann segja „Ret“.
Nú brá annar þeirra félaga upp hníf, og ætlaði að reka hann fyrir brjóstið á Sigurði, en Sigurður brá hendinni undir olnbogann á honum, svo að hnífstungan mistókst. Þá bregður hinn félaginn við, og ætlaði að leggja hnífi sínum í Sigurð, en honum gat Sigurður hrundið til, svo að hann féll aftur á bak. En í því gat hinn sem uppi stóð séð sér færi og lagði hnífi sínum af af miklu í hálsinnn á Sigurði; vidi það eitt honum til lífs, að hann hafði tvöfaldan flibba, og fór hnífurinn að eins inn úr flibbanum og í hálsinn á Sigurði og særði hann þar allmikið; má telja það víst, að annars hefði hann beðið bráðan bana ef flibbinn hefði ekki orðið fyrir. Nú var hinn félaginn kominn á fætur aftur, og miðaði hann hnífi sínum í síðuna á Sigurði, en hann gat undið sér undan, og kom vopnið þá á snið í lærið á honum, særði hann þar lítilsháttar og reif allar buxurnar. Rétt í þessu heyra þeir, að vagn kemur ofan eftir veginum. Þorðu tilræðismennirnir þá ekki að bíða lengur, og fór sinn í hvora áttina yfir Félagstún og hurfu út í náttmyrkrið. Komst Sigurður nú loksins þannig leikinn heim til sín og sagði húsbónda sinum hvernig farið hafði.
Þetta var um kl. 8 síðdegis. Þegar er Sigurður kom heim og sagði frá því, er fyrir hann hafði borið, fónaði hr. Brillouin til bæjarfógeta, og skýrði hann honum frá tilræðinu. Bæjarfógeti sendi strax tvo lögregluþjóna þangað inneftir og lögðu þeir nokkrar spurningar fyrir Sigurð. En hann gat engar upplýsingar gefið, er bent gæti í áttina hverjir tilræðismennimir væru. Þeir voru báðir grímuklæddir, eins og áður er sagt, og gat hann hvornugan þekkt; en það hélt hann, að þeir væru útlendingar. Í dag hélt bæjarfógeti próf yfir Sigurði en' ekki er oss kunnugt um, að neitt nýtt hafi þar fram komið.
Það er örðugt að geta sér til um, hver tilgangurinn hefir verið með þessu tilræði. Vér höfum spurst fyrir um hvort Sigurður hafi haft nokkra peninga, og er oss sagt, að svo hafi ekki verið, hann hafi einungis verið með bréf af pósthúsinu. Enda er ólíklekt að þessir menn hafi ætlað sér að ræna af honum peningum eða öðru, því að til þess hefðu þeir ekki þurft að stinga hann með hnífum; ef svo hefði verið myndu þeir sennilega hafa látið sér nægja með að slá hann í rot, eða eitthvað þvílíkt, og hefðu þeir auðveldlega getað það, þar sem þeir voru tveir og komu að honum óvörum. Sigurður hefir líka verið spurður, hvort hann ætti nokkra fjandmenn sem hann gæti hugsað sér, að ættu einhvers að hefna á honum, en hann kveður nei við því. Alt þetta tilræði er því næsta óskiljanlegt, og örðugt að geta sér til um í hvaða tilgangi það hefir verið unnið. En vonandi tekst lögreglunni bráðlega að komast fyrir hið sanna.
Vér skulum vekja athygli manna á auglýsingu hr. Brillouins á öðrum stað í blaðinu, þar sem hann heitir þeim 200 kr. að verðlaunum, er geti gefið upplýsingar um hver verkið hefir unnið. Ef einhver veit eitthvað, er hann heldur að geti leitt til þess, að tilræðismennirnir verði gripnir, þá ætti hann að gefa sig hið fyrsta fram við bæjarfógetann eða hr. Brillouin. Þess mun vandlega verða gætt, að ekki berist út hver slíkar upplýsingar gefur, svo að enginn þarf að óttast að nein hætta stafi af því. En að því er enn verður séð, virðist liklegast að hér sé um beint banatilræði að ræða, og er því áríðandi vegna öryggis almennings að sem fyrst verði komist fyrir hverjir mennirnir eru.
Vísir segir frá árásinni degi síðar á forsíðu. Sú frásögn er að mestu samhljóða Ingólfi, en þó er smáatriði um klæðaburð Sigurðar:
Eflaust hafa menn þessir ætlað að ráðast á ræðismanninn, og ekki þekt í myrkrinu annað en það væri hann. Piturinn er álíka stór vexti og svo bar við að hann var í "sport" fötum af Brillouin.
Sigurður Guðmundsson var fæddur 12. eða 13. júní 1889 í Merkinesi, Höfnum. Faðir hans var Guðmundur Einarsson frá Merkinesi, fæddur 1860. Móðir hans var Guðríður Sigurðardóttir frá Kirkjulæk í Fljótshlíð, fædd 1866. Alls eignuðust þau hjónin sex börn, auk Sigurðar.
1898, þegar Sigurður var 9 ára flutti fjölskyldan til Reykjavíkur. Í manntali 1901 eru þau búsett í Ívarsseli, vestast á Vesturgötunni. Það hús stendur nú á Árbæjarsafni. Sigurður var fermdur 27. sept 1903 og sagður lesa ágætlega, kunna kristindóm dável, skrifa dável, reikna vel og hegða sér vel.
Í manntalinu í Reykjavík 1909 (sem ég myndi hlekkja á ef vefur Borgarskjalasafns Reykjavíkur væri ekki horfinn af internetinu!) er fjölskyldan flutt á Laugaveg 35. Ári síðar, þann 1. maí 1911 deyr húsfreyjan Guðríður, nokkrum mánuðum fyrir banatilræðið.
Í Reykjavík þessa dagana var starfandi landsfrægur lögregluþjónn, Þorvaldur Björnsson, nefndur Þorvaldur pólití. Í Morgunblaðinu 1997 skrifaði Pétur Pétursson þulur um Þorvald og við skulum setja smávegis af því hér, en ég hvet þig til að lesa það allt í góðu tómi:
Hús það, sem hér um ræðir stóð áður við Hverfisgötu nr. 23. Það var engin tilviljun. Sá, sem þar réð ríkjum, hvað lengst, var Þorvaldur Björnsson lögregluþjónn, Þorvaldur "pólití", skelfir allra pörupilta, og refsivöndur Reykvíkinga. Þéttur á velli og þéttur í lund. Harður í horn að taka. Kominn af höfðingsklerknum Prestahögna o.fl. kirkjuhöfðingjum. Og hélt sig að höfðingjum. Spilaði l'hombre við Börn Jónsson ráðherra, Indriða Einarsson revisor og rithöfund, og Ólaf Rósinkranz leikfimikennara og fulltrúa.
Næsti nágranni Þorvalds lögregluþjóns var Jón Magnússon ráðherra, áður bæjarfógeti Reykjavíkur. Hann mun hafa ráðið mestu um búsetu Þorvalds. Sjálfur reisti hann sér steinhús, stórt og reisulegt, á lóðinni nr. 21 við Hverfisgötu, þar sem nú er aðsetur bókagerðarmanna. Jón bæjarfógeti taldi nauðsynlegt að hafa yfirlögregluþjóninn í kallfæri og mun hafa þótt öryggi að vita Þorvald svo nálægan sér og ekki spillti að Gráni, gæðingur yfirlögregluþjónsins, "hneggjaði við stall með öllum tygjum" í kjallara pólitísins . . . Að sögn Indriða Einarssonar spilafélaga Þorvalds þekkti enginn maður betur en Þorvaldur á góðhestinn eða fjörhestinn, "enda áttu fáir betur heima á hestbaki". Reykvíkingar vissu allir um spretthörku Grána og þótt þá fýsti mjög að slá undir nára og skella á skeið er þeir komu úr útreiðartúrum sínum þá óttuðust þeir fyrirsát Þorvalds og Grána við Hlemm, en þar fylgdust þeir félagar með því hvort brotin væru lög um bann við þeysireið innan bæjarmarka.
En semsagt: Þorvaldur tók við að rannsaka málið og það leið sannarlega ekki á löngu þar til niðurstaða fékkst.
Ingólfur kom næst út 22. nóvember en þegar þann 18. hafði Ísafold sagt frá því að málið væri leyst. En við skulum hafa hér frásögnina úr Ingólfi, enda er hún um margt litríkari en það sem Ísafold birti:
Nú er orðið uppvíst um hver það var, sem veitti Sigurði Guðmundssyni „banatilræðið," sem um er getið í síðasta blaði; morðvargurinn er hann sjálfur!
Þorvaldur Björnsson lögregluþjónn komst að því , að Sigurður hafði komið til kunningja síns sama kvöldið og „morðtilraunin“ átti að hafa verið framin. Hafði Sig. þá sagt þessum kunningja sínum, að hann hafi lent í ryskingum við 2 Norðmenn úti á Batteríi, og hafi þeir stungið sig með hnífum í hálsinn og í lærið; þessu sagði hann frá kl. hálf átta, þegar hann var á leið heim. En kl. 8 kom hann svo heim, og sagði þá konsúl Brillouin frá að sér hefði verið veitt banatilræði við efra hliðið á veginum niður Félagstún rétt í þeim svifum.
Þetta var óneitanlega nokkuð grunsamlegt, og Þorvaldur fór þá að ganga á piltinn og spyrja hann, og kannaðist hann þá við, að fyrri sagan, um Batteriið væri uppspuni. Þá þóttu nú fengnar allmiklar líkur fyrir því, að seinni sagan væri lika uppspuni, og fór Þorvaldur því með Sigurð upp til bæjarfógeta, og kannaðist hann þar viðstöðulaust við að hafa skrökvað upp allri sögunni. Kvaðst hafa tekið af sér flibbann á leiðinni inneftir til konsúlsins, og stungið þar gat á hann og rispað sig síðan á hálsinum, og rist gat á buxurnar. Það var á föstudagakvöldið var að Sigurður játaði uppá sig, og var hann þá þegar settur í varðhald. Tæplega mun hann komast hjá einhverri refsingu fyrir tiltækið.
Bæði bæjarfógeti og Þorvaldur hafa hvað eftir annað gengið á hann og spurt hann hvað honum hafi gengið til að búa til þessa sögu, en hann verst allra sagna um það.
Vér höfum átt tal um þessar nýju upplýsingar við hr. Brillouin konsúl, og er hann mjög leiður yfir að pilturinn skyldi taka uppá þessum sögutilbúníngi, og kveðst aldrei hafa orðið var við neitt slíkt hjá honum áður. En það segir hann að sér þyki kynlegt við þessa sögu, að þegar Sigurður hafi komið heim um kvöldið, hafi hann verið fölur eins og lík, og hafi fyrst varla get að komið upp orði og hafi hann yfirleitt borið öll merki þess, að hann hafi komist í sterka geðshræringu; hann sagði því, að sér hafi ekki eitt augnablik komið annað til hugar enn að hvert orð væri satt, sem hann segði.
En hvað sem nú um það er, þá mun þó þessi játning Sigurðar verða tekin trúanleg, þó það virðist næstumþví jafn sennilegt að hann skrökvi henni eins og að hann skrökvi sögunni. Hr. Brillouin hefir þegar afhent bæjarfógeta þær kr., sem hann lofaði í verðlaun þeim, sem kæmist fyrir hið sanna í málinu, og er oss sagt að bæjarfógeti hafi afhent Þorvaldi féð, enda mun hann hafa unnið til þess.
Bærinn er orðinn rólegri; og þeir sem hafa verið á gleðskap og koma seint heim á kvöldin þurfa nú ekki lengur að hrökkva við þó þeir gangi fram hjá einhverju dimmu skoti og sýnist skína á hnifsblað; vér viljum að minsta kosti engum ráða til að segjalögreglunni frá því, því það er auðsjáanlegt, að það kemur manni bara sjálfum í koll.
Í frásögninni í Ísafold er vöngum velt yfir hvað Sigurði hafi gengið til:
Sigurður situr nú i fangelsi — var neitað viðtöku af Brillouin — en hvað um hann verður frekara, er óvíst.
Hvers vegna hann hefir hleypt sér út í þennan lygavef er vandi úr að leysa. Líklega er það af strákskap gert upphaflega. Honum hefir þótt bragðmikið að geta sagt husbónda sinum frá svo svaðalegu æfintýri — og búist við því, að eigi yrði rekist í því neitt frekara. En er Brillouin tók svo í málið, að kæra til lögreglunnar, hefir Sigurður ekki þorað annað en standa við söguna fyrir réttvísinni, af hræðslu við að verða rekinn úr vist inni hjá Brillouin ella. En svo fallið smámsaman allur ketill í eld og eigi séð neitt undanfæri, er búið var að komast fyrir, að hann sama daginn hafði buið til sams konar sögu við annan mann.
Það er eigi fyrsta sinni, að Þorvaldur Björnsson fljótt og vel kemst fyrir afbrot hér í bænum. Dugnaði hans í þeim efnum má við bregða. Og vel er farið, að hann nú einu sinni fær myndarlega viðurkenningu, því Brillouin hafði heitið 200 kr., þeim er kæmist fyrir þetta mál.
Föstudaginn 24. nóvember er Sigurður færður fyrir dóm í máli Réttvísinnar gegn Sigurði Guðmundssyni og fyrir hann lögð stefna, prófsútskrift og hegningarvottorð. Ákærði kannaðist við að skjölin ættu við um sig og lýsti því yfir að hann hefði ekkert við mál þetta að athuga. Lýsti því þó yfir að það hefði ekki vakað fyrir honum að leitað yrði til lögreglunnar út af þessu máli öllu. Málið dómtekið.
Daginn eftir kveður Jón Magnússon bæjarfógeti upp dóm.
Ár 1911, laugardaginn 25. nóvember er í aukarjetti Reykjavíkur
í málinu Réttvísin
gegn
Sigurði Guðmundssyni
uppkveðinn svofelldur
dómur.Mál þetta er höfðað af hálfu réttvísarinnar gegn ákærðum Sigurði Guðmundssyni vinnumanni hjer í bænum fyrir rangan vitnisburð fyrir rjetti.
Það er sannað með játningu ákærðs sjálfs og öðrum gögnum í málinu að hann hafi gerst sekur í eptirnefndu athæfi. Mánudaginn 13. þ.m. sendi Brillouin konsúll húsbóndi ákærðs hann eftir póstsendingum á pósthúsið. Ákærði, sem var nokkuð lengi í sendiferð þessari, kom á heimleið inn í verslunarbúð Siggeirs kaupmanns Torfasonar við Laugaveg, hitti þar fyrir einn verslunarmann og sagði honum að hann ákærður kæmi úr áflogum við tvo útlendinga, sem hann ekki hefði þekkt, hefðu þeir verið með knífa. Áflogin sagði ákærður , að hefðu verið á Batteríinu. Kvaðst hann hafa meiðst í áflogunum og bað verslunarmanninn um staup af brennivíni og fjekk það. En þegar heim kom, sagði ákærður húsbónda sínum svo frá að ráðist hefði á sig við hlið eitt sem er á vegi þeim, er gengur af Laugaveginum heim að húsi húsbónda hans, tveir menn, útlendingar hjelt hann, og síðan lagt til sín með knífum annar í gegnum flibba sinn, sært sig á hálsinum en hjá hinum lenti lagið á læri ákærðs. Hefðu þessir ókunnu menn svo hlaupið burtu, er heyrðist til vagns á Laugaveginum rjett hjá. Sást að gat var á flibba ákærðs og lítil rispa á hálsinum þar fyrir innan, og sömuleiðis gat í gegnum buxur ákærðs og lítil rispa þar fyrir innan. Húsbóndi ákærðs kærði þegar fyrir lögreglunni árás þessa á vinnumann sinn, en það verður að álíta, að ákærður hafi engan beinan þátt í því að, að leitað var þá til lögreglunnar. Daginn eftir endurtók ákærður þessa sömu sögu um árásina við yfirheyrslu fyrir rjetti. En hann hefur síðan viðurkennt, að báðar sögurnar, bæði sú um áflogin á Batteríinu og hin um árásina við hliðið hafi verið uppspunnar, þeir síðari helst til þess, að ekki yrði að því fundið, þótt hann hefði verið lengi í sendiferðinni, og að hann hafi sjálfur gert gat á á flibbann og rispað sig á hálsi og læri.
Það verður að líta svo á að ákærður hafi borið falsvitni fyrir rjetti og þannig gerst sekur gegn 147. gr. hegningarlaganna. Ákærður er rúmlega tvítugur og þannig kominn yfir lögaldur sakamanna, og verður hegning sú, er hann hefir til unnið, hæfilega metin 2x5 daga fangelsi við vatn og brauð. En með tilliti til ungs aldurs ákærðs og sæmilegrar hegðunar annars, hingaðtil, þykir rjett samkvæmt lögum um skilorðsbundna hegningardóma ofl. 16. nóvbr. 1907, 1.gr., að fresta fullnustu dóms þessa, að því að hegning snertir, og fellur hegningin niður að 5 árum liðnum frá uppsögn dómsins, ef ákærður á því tímabili eigi verður dæmdur í opinberu máli fyrir glæp framinn af ásettu ráði til þyngri hegningar, en sekta. Ákærðum ber að greiða allan kostnað sakarinnar.
Því dæmist rjett vera.
Ákærður Sigurður Guðmundsson sæti 2x5 daga fangelsi við vatn og brauð en sú hegning skal samkvæmt lögum 16. nóvember 1907 um skilorðsbundna hegningardóma falla niður eftir 5 ár, ef ákærði heldur skilorð. Svo greiðir ákærði allan sakarkostnað.
Dóminum að fullnægja undir lagaaðför.
Jón Magnússon
Ekki er mér kunnugt um annað en að Sigurður hafi haldið þetta skilorð. Í manntali 1912 er hann fluttur til föður síns á Laugaveg 35, enda hafði franski konsúllinn líklega ekki efni á að hafa hann í þjónustu sinni ef hann yfirhöfuð kærði sig um, en fljótlega eftir mál þetta allt varð rekstur Franska spítalafélagsins, þar sem konsúllinn var forstjóri, allur hinn versti. Í ársbyrjun 1914 eignaðist Landsbankinn Höfða.
Sigurður varð ekki mjög gamall. Hann fórst 7. janúar 1920 þegar mótorbáturinn Guðrún sökk rétt fyrir utan Akranes. Hann var 31 árs.
Þannig var nú það.
Hafðu það sem allra best!