Naomi Wolf átti erfiða liðna viku. Í útvarpsviðtali á BBC var
fótunum kippt undan hluta rannsókna hennar í nýrri bók,
Outrages: Sex, Censorship, and the Criminalization of Love. Viðtalið er pínlegt að
hlusta á og ekki skánaði það þegar Wolf hélt áfram samtalinu við viðmælandann,
Matthew Sweet, á twitter og
vitnaði þar m.a. í fræðigrein eftir A. D. Harvey nokkurn.
A. D. Harvey er breskur sagnfræðingur með vægast sagt vafasama fortíð. Árið 2013 var því ljóstrað upp að Harvey hefði árið 2002, undir nafninu Stephanie Harvey, falsað sögu um fund Dickens og Dostójevskís í London, 1862. Greinin um þessa blekkingu (og fleiri!) birtist í The Times Literary Supplement og er stórkostleg aflestrar:
When Dickens met Dostoevsky.
Shane Morris nokkur birti í seinustu viku langan twitter þráð (hann hefur síðan fjarlægt þráðinn) þar sem hann lýsti þvi hvernig hann
flutti heróín, óafvitandi frá Los Angeles til Seattle. Þráðurinn var skemmtilegur, en tóm lygi frá upphafi til enda.
Allmargir fjölmiðlar féllu fyrir bragðinu.
Sagan varð enn skrítnari
þegar Morris viðurkenndi lygarnar og stofnaði söfnunarreikning handa sjálfum sér, að sögn vegna þess að hann væri í lífshættu þar sem gengjameðlimirnir sem hann sveik ekki, væru á eftir honum.
Það er ekki úr vegi að rifja upp hina mögnuðu rannsókn The Smoking Gun frá 2006 á hinni meintu sjálfsævisögu
James Frey, A Million Little Pieces:
A Million Little Lies - Exposing James Frey's Fiction Addiction.
Sósíópatinn Elon Musk hefur í hyggju að
fylla geiminn af gervihnöttum fyrir internettraffík.
Stjörnufræðingar eru ekki hressir.
Kristjana Bjarnadóttir heldur úti
skemmtilegu bloggi með ferðasögum. Myndin hér að ofan er eftir hana, tekin á Grænlandi og sýnir strandkort sem notað var til leiðsagnar. Myndin er úr
ferðasögu Kristjönu úr gönguskíðaferð um Austur-Grænland, 2018.
Mark Webb gekk "upp" Bretland í vor, frá
Land's End í suðri til John O'Groats í norðri. Mögnuð ferðasaga og spennandi ganga.
Árbók Ferðafélags Íslands er merkileg ritröð. Nýjasta útgáfan er helguð
Mosfellsheiði og er bæði fróðleg og gagnleg. Það má svo versla eitthvað af
eldri bókum hjá félaginu.
Ég útbjó í seinustu viku twitter-þjark,
@tunakortin, sem tístir fjórum sinnum á dag korti úr
túnakortasafni Þjóðskjalasafnsins. Kortið hér að ofan er af Breiðagerði í Vatnsleysustrandarhreppi, teiknað af Vigfús Guðmundssynii frá Keldum árið 1919.
Ef þú vissir það ekki, þá held ég úti
litlum vef sem tekur saman fundargerðir sveitarfélaga (og annarra félaga). Sömuleiðis rek ég vefsvæði sem heldur
utanum umsagnir sem berast Alþingi við þingmál. Þetta rúllar að mestu sjálft, en það er alltaf eitthvað viðhald. Ég skal alveg viðurkenna að ég er orðinn pínu þreyttur á þessu útstáelsi. Kannski vill einhver lesandi gerast eigandi þeirra, gegn því að halda þeim við? Ef svo er þá er ég í símaskránni (eða þúst: það má svara þessu bréfi).
Hér eru eldri tölublöð.
Hér er ég á twitter.
Hér er einhverskonar vefur.
Hér er netfangið mitt.
Þú getur sagt upp áskriftinni eða skráð þig
hérna.