Hjónavígsluráðgátan
Þjóðskrá Íslands hóf í október síðastliðnum að birta mánaðarlegar tölur um stofnun hjúskapar og lögskilnaði.
Desember útgáfan inniheldur auk þess yfirlit yfir hjónavígslur frá og með árinu 1999.
Þetta eru gleðitíðindi fyrir áhugafólk um tölfræði, enda hefur Hagstofa Íslands ekki birt
sambærilegar tölur síðan 2011. Það er náttúrulega frekar skrítið, svo ekki sé meira sagt og þar með rofnar samfellt safn upplýsinga um
hjónavígslur frá árinu 1771. Ekki er getið um uppfærslu þeirra í
birtingaráætlun Hagstofunnar fyrir 2019, og eldri birtingaráætlanir eru ekki aðgengilegar á vef stofnunarinnar.
Nema hvað.
Það sem er enn skrítnara er að tölur Þjóðskrár og Hafstofunnar stemma ekki.
Berum saman árin 1999-2011.
Það er augljóst að það er mikil fylgni á milli þessara tveggja gagnasetta. En hvað skýrir muninn? Þjóðskrá segir þetta um gagnaöflun sína:
Ath. tölurnar byggjast á tilkynningum frá trú – og lífsskoðunarfélögum og sýslumannsembættum sem berast Þjóðskrá Íslands.
Hagstofan býður upp á þessar skýringar við sínar tölur:
Taflan um hjónavígslur 1771-2011 er í samræmi við töflur 2.28 og 2.29 í Hagskinnu auk þess sem tölum áranna 1991 og síðar hefur verið bætt við. Þær tölur sem að auki fylgdu töflu 2.29 hafa verið fluttar í sjálfstæðar og ítarlegri töflur en áður hafa birst um vígslumáta brúðhjóna með 1916 sem upphafsár og hjónavígslur eftir fyrri hjúskaparstétt brúðhjóna með 1838 sem upphafsár.
Mér hefur ekki tekist að finna neina lýsingu á aðferðafræði Hagstofunnar. Ekki í Hagskinnu, ekki á vef stofnunarinnar, ekki í gömlum
Hagskýrslum/hagtöluárbókum (sem Hagstofan á hrós skilið fyrir að koma á timarit.is)
Kannski getur þú, lesandi góður, leyst þessa ráðgátu?
Stafrænt ofbeldi
Lýðræðið er rotnandi hræ, sagði Mussolini og hafði ekki alrangt fyrir sér. Twitter er líka rotnandi. Amnesty International
stóð fyrir rannsókn á stafrænu ofbeldi sem konur verða fyrir á þeim miðli. Það er ekki uppörvandi lesning fyrir framtíð mannkyns.
Kvennafangelsi
Árið 1982 voru um 330.000 manns í fangelsi í Bandaríkjunum. Núna er sú tala í um 2.2 milljónum og sá hópur sem stækkar hraðast eru konur. Hér eru 9904 orð um það vandamál:
Stripped: The Search for Human Rights in US Women’s Prisons
Snjallborgir
Það er víða verið að vinna að einhverju sem kallað er snjallvæðing borga. Það virðist oft vera á forsendum tæknifyrirtækja, sem af einhverju ástæðum sjá sér skyndilega hag í að styrkja innviði borga. Afhverju ætli það sé? Í Toronto er Google að ganga fram af fólki.
Google's secretive, data-hungry private city within Toronto will be much larger than previously disclosed
Opin vísindi
Opin vísindi hreyfingin (e.
open access) er merkilegt fyrirbæri. Eins og segir á
íslenskum vef hreyfingarinnar:
Af hverju OA?
[...]
Aðgengi almennings – a) Vísindarannsóknir eru fjármagnaðar af almanna fé og því á almenningur rétt á því að hafa aðgang að niðurstöðum þeirra. Almenningur á ekki að þurfa að borga (í gegnum tímaritaáskriftir bókasafna) til þess að fá aðgang að niðurstöðum rannsókna sem þeir eru í raun búnir að fjármagna með skattfé sínu. b) Almenningur hefur aðgang að mikilvægum upplýsingum fyrr (t.d. mikilvægum uppgötvunum í læknavísindum)
Það sem er stafrænt er erfitt að læsa inni. Það á við um vísindagreinar eins og annað. Hér er risastór rannsókn á því hver eru að "stela" vísindagreinum:
Who is pirating medical literature? A bibliometric review of 28 million Sci-Hub downloads
ÖSE heimsækir Svíþjóð
Það var kosið í Svíþjóð í september. Ekki að það hafi skilað miklu. Landið er enn stjórnlaust, en það kemur svosem ekki að sök. Þar sem tveir Svíar koma saman, þar myndast röð. Slíkt fólk lætur vel að stjórn, jafnvel þó enginn sé að stjórna því.
Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) var með kosningaeftirlit í fyrsta sinn við kosningarnar.
Skýrslan er komin út. Athugasemdirnar eru ekki stórvægar, en stofnunin bendir t.d. réttilega á að hið galna fyrirkomulag að kjósandi velur sér kjörseðil merktum framboði áður en farið er inn í kjörklefa sé vissulega galið (ÖSE segir ekki galið - ég segi galið).
Og þannig er nú það. Gleðilega hátíð!