Meðmæli forsetaefnis
Hey hó!
Fyrsta lettersbréf ársins er komið til þín... verður þetta það eina á þessu ári? Hver veit? Miðað við reynslu fyrri ára er það ekki ólíklegt...
Nema hvað.
Það verða forsetakosningar 1. júní næstkomandi.
Í grunninn er framkvæmd almennra kosninga í nokkuð föstum skorðum. Undanfarin ár hafa þó verið gerðar nokkuð veigamiklar breytingar á stjórnsýslu kosninganna með tilkomu nýrra heildarlaga. Ég ætla ekkert að fara út í þær breytingar, að sinni, en mig langar aðeins að ræða afmarkaðan hluta, nefnilega meðmæli forsetaefnis.
Skilyrði sem þau sem ætla að bjóða sig fram til embættisins þurfa að uppfylla eru skilgreind í tveimur greinum stjórnarskrárinnar, þeirri fjórðu og fimmtu. Þær eru svona:
4. gr.
Kjörgengur til forseta er hver 35 ára gamall maður, sem fullnægir skilyrðum kosningarréttar til Alþingis, að fráskildu búsetuskilyrðinu.
5. gr.
Forseti skal kjörinn beinum, leynilegum kosningum af þeim, er kosningarrétt hafa til Alþingis. Forsetaefni skal hafa meðmæli minnst 1500 kosningarbærra manna og mest 3000. Sá, sem flest fær atkvæði, ef fleiri en einn eru í kjöri, er rétt kjörinn forseti. Ef aðeins einn maður er í kjöri, þá er hann rétt kjörinn án atkvæðagreiðslu.
Að öðru leyti skal ákveða með lögum um framboð og kjör forseta, og má þar ákveða, að tiltekin tala meðmælenda skuli vera úr landsfjórðungi hverjum í hlutfalli við kjósendatölu þar.
Undanfarið hefur mátt sjá í fjölmiðlum nokkra umræðu um þessi skilyrði og þá einna helst fjölda þeirra meðmælenda sem forsetaefni þarf að leggja fram til þess að komast á kjörseðilinn.
Ólafur Þ. Harðarson nefnir það „reginhneyksli“ hversu lágar þessar tölur eru þann 7. janúar. Sex dögum fyrr, á nýársdag, nefndi hann töluna 1500 sem „gjörsamlega fráleit tala“. Kolbrún Bergþórsdóttir skrifaði þann 6. janúar viðhorfspistil í Morgunblaðið undir yfirskriftinni „Þreytandi vitleysisgangur“ þar sem segir:
Allir þessir einstaklingar fá sínar fimmtán mínútur af frægð, einfaldlega vegna þess að sárafáa meðmælendur þarf til að geta farið í framboð hér á landi. Afleiðingin er sú að með reglulegu millibili fer af stað fáránlegur sirkus í kringum virðulegasta embætti þjóðarinnar. Allt stefnir í að svo verði einnig að þessu sinni og er algjör vanvirðing við hið háa embætti embætti forseta Íslands.
30. janúar birti fyrirtækið Prósent svo könnun um afstöðu þjóðarinn til málsins þar sem langflest eru á því að þetta lágmark ætti að vera hærra.
Það eru fleiri dæmi til en ég nenni ekki að tilgreina þau, nema kannski að við ættum öll að horfa á ágætt viðtal Gunnars Smára Egilssonar við Andra Snæ Magnason, fyrrverandi forsetaframbjóðanda, um hvernig sá sirkus er allur. Þar er aðeins komið inn á þessi skilyrði. Almennt er það mín tilfinning að allir og amma þeirra hneykslist á því á öllum kaffistofum hversu lítilfjörleg þessi tala meðmælenda er í löggjöfinni.
En hvaðan kemur þessi hugmynd yfir höfuð. Afhverju þarf að reisa girðingar til þess að kjörgengt fólk geti boðið sig fram til þessa embættis? Ég ætla ekki að fara djúpt í þær ástæður en hvet þig til að lesa góða úttekt Svavars Gestssonar heitins á því ferli sem leiddi af sér stjórnarskrá lýðveldisins sem birtist í Rétti 1993. Þar kemur m.a. fram að tillagan kom frá Einari Olgeirssyni (málið er flóknara, en látum þetta nægja).
Það væri nýmæli í íslenskri stjórnmálasögu ef við hefðum fundið upp á kerfi án nokkurra fyrirmynda (kosningarkerfið okkar er t.d. afrit af því danska). Og um þetta á það nákvæmlega sama við. Hér má sjá yfirlit um hvernig ríki í Evrópu haga þessum málum (fengið héðan, tölur frá 2019):
Semsagt: Þær þjóðir sem „við viljum helst miða okkur við“ viðhafa langflestar einhversskonar undirskriftasöfnun til þess að frambjóðendur geti boðið sig fram og að meðaltali er hlutfall þeirra sem þurfa að mæla með frambjóðenda um 0,4%.
Kjósendur á kjörskrá við seinustu forsetakosningar voru 252.152. 0,4% af því eru 1008 kjósendur. Í dag þurfa forsetaefni að safna að lágmarki 1500 en að hámarki 3000 undirskriftum. Augljóst er að við skerum okkur ekki sérstaklega úr þegar kosningakerfin í Evrópu eru borin saman.
Kosningakerfi breytast hægt og kannski mætti álykta að öll þessi lönd búi við úrelt kerfi sem gengur illa að breyta. Til að sjá hvort svo sé má skoða tilmæli tveggja alþjóðastofnana sem fjalla um kosningakerfi. Annars vegar ÖSE (ODIHR) og hinsvegar Feneyjarnefndarinnar.
Skoðum Feneyjarnefndina.
2002 gaf nefndin út skjalið „Code of Good Practice in Electoral Matters: Guidelines and Explanatory Report“. Í kafla 1.3 segir:
i. The presentation of individual candidates or lists of candidates may be made conditional on the collection of a minimum number of signatures;
ii. The law should not require collection of the signatures of more than 1% of voters in the constituency concerned;
Nefndin hefur ítrekað þetta, eins og má sjá í skýrslunni REPORT ON ELECTORAL LAW AND ELECTORAL ADMINISTRATION IN EUROPE
þar sem segir:
In any case, it is generally agreed that signature requirements should not be too high. The Code of Good Practice in Electoral Matters stipulates that a maximum of 1% signature requirement in relation to the electorate of the national or constituency level where elections are held should not be exceeded (CDL-AD(2002)023rev2.cor, part I. 1.3 ii). In several elections, the required number of signatures was relatively high, sometimes even surpassing the recommended maximum of 1%. In Montenegro, for instance, political parties and citizens’ groups nominating presidential candidates had to collect supporting signatures from at least 1.5% of the registered voters.
ÖSE hefur notað þetta viðmið um eitt prósent ítrekað í tilmælum sínum við kosningaeftirlit. Hér má sjá yfirlit yfir tilmæli ÖSE þar sem athugasemdir eru gerðar við skilyrði sem frambjóðendur þurfa að uppfylla. Ítrekað bendir ÖSE á að að hámarki ætti sú tala að vera 1 prósent.
Eins og við vitum þá myndi það þýða að undirskriftir til stuðnings forsetaframbjóðenda hér á landi þyrftu að vera um 2500.
Merkilegt nokk þá rúmast það innan núverandi skilyrða.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þessi umræða kemur upp. Stjórnarskrárnefnd sem skilaði skýrslu 1978 lagði til 3000 að lágmarki og 6000 að hámarki.
Björg Thorarensen vakti máls á þessu árið 2016 í viðtali við DV og taldi nauðsynlegt að breyta meðmælendatölunni.
2021 lagði Katrín Jakobsdóttir svo fram frumvarp til breytinga á stjórnarskránni þar sem tilgreind var hlutfallstala:
Forseti skal kjörinn beinum, leynilegum og almennum kosningum af þeim er kosningarrétt hafa til Alþingis. Forsetaefni skal hafa meðmæli minnst 2,5% kosningarbærra manna og mest 5%.
Eins og kunnugt er fór það frumvarp ekkert áfram. Áhugavert hefði verið að sjá hver viðbrögð sérfræðinga ÖSE og Feneyjarnefndarinnar hefðu orðið ef við hefðum, ein þjóða, reist 2,5% girðingu fyrir framboð forseta.
En semsagt: Hugmyndir um að stórauka þann fjölda meðmælenda sem þarf til að bjóða sig fram til forseta ganga þvert á ráðleggingar sérfræðinga og framkvæmd í öðrum ríkjum Evrópu.
Vonandi deyr nú þessi umræða.
Bestu kveðjur,
Páll Hilmarsson