March 29, 2019, midnight

Nupur Lala og Factsheet Five

Gögn

Nupur Lala

Ég er að dunda mér við að skrá niður vinylplötusafnið mitt. Snemma á þessari öld gerði ég tilraun til þess, en það var einhvernveginn ómögulegt. Lítið um heimildir eða forrit til að það yrði almennilega nothæft (eða þá bara að ég nennti því ekki). En núna er það auðvelt og ég nenni því. Ég skrái það á discogs.com.

Safnið mitt er skitsófrenískt. Partur af því kemur frá foreldrum mínum (Leonard Cohen og Roxy Music og Bryan Ferry), en mest allt er það eitthvað sem ég hef keypt á skransölum. Stundum kaupi ég plötu vegna þess að hún virkar skrítin, stundum vegna þess að umslagið er sérstakt. Stundum bara vegna þess að ég hef hana fyrir framan mig og tími að setja pening í það. Sem er reyndar alltaf. Ég tími alltaf að kaupa vínyl. Auðvitað er ég bara að næra söfnunaráráttuna mína. Marie Kondo og ég erum á öndverðum meiði.

Þar sem ég var að skrá í vikunni kom ég að þessari plötu með Dauðyflunum og þá fór ég að hugsa um Alexöndru og Fannar og Júlíu og Þóri og allt það klan sem er svo duglegt við að búa til pönk og ég þekkti eitt sinn lítillega. Og þá fékk ég óstjórnlega löngun til að hlusta á lagið Nupur Lala af plötunni hans Þóris, Anarchists are Hopeless Romantics frá 2005. Mæli með að þú smellir á tengilinn og hlustir.

Ég man hvað ég var hissa þegar ég heyrði Þóri flytja þetta lag fyrst. Ég vissi alveg að Þórir væri hæfileikaríkur, en ég trúði því varla að hann gæti gert nokkuð eins og þetta. En svo gerði hann það bara.

Einhverntíman googlaði ég svo titilinn. Þá komst ég náttúrulega að því að Nupur Lala er kona í Bandaríkjunum sem vann stafsetningarkeppni árið 1999 þegar hún var 14 ára og varð fræg vegna þess að um keppnina var gerð kvikmynd.

Og nú er hún orðin fullorðin og Þórir er enn að gera tónlist.
 

Factsheet Five

Einhverntíman á milli 1995 og 1996 fór ég í fornbókaverslunina Bókavarðan, sem þá var á Vesturgötu 17. Verslunin, sem núna er á horni Hverfisgötu og Klapparstígs var þá, eins og nú, rekin af feðgunum Ara Gísla Bragasyni og Braga Kristjónssyni. Ég átti það til að hanga í þessari verslun (söfnunaráráttan) og stundum keypti ég meiraðsegja bækur. En í þetta sinn þá stal ég.

Eins og þetta er í minnunginni þá lá þetta blað efst í bunka framarlega í versluninni. Ég blaðaði í því og stakk því svo í töskuna. Og fór svo.

Þetta var 38. tölublað af tímaritinu Factsheet Five, gefið út í New York fylki árið 1990. Þú getur lesið það hér, þökk sé archive.org.
F5 var ótrúlega merkilegt fyrirbæri. Hvert tölublað innihélt hundruði af stuttum umsögnum um það sem á ensku nefnist zine. Á þeim tíma var zine kúltúrinn ótrúlega gróskumikill (þetta var jú áður en internetið kom og eyðilagði allt fýsískt). Með F5 í hendinni gat maður pantað allskonar blöð hvaðanæfa úr heiminum. Komist í samband við allskonar fólk. Með bréfaskriftum. Þetta var algjörlega geggjaður menningarkimi.

Factsheet Five lagði upp laupana skömmu eftir að ég stal þessu blaði þarna á Vesturgötunni. Ég náði þó að panta nýrra tölublað og sumt af því sem ég las í því kom mér inn í furðuheim póst-listar (e. mail-art) sem ég hrærðist aðeins í næstu árin.

Arkív Factsheet Five er geymt í New York State Library og telur yfir 10.000 zines eða átta og hálfan rúmmetra, eins og Wikipedia segir svo furðulega nákvæmlega. Mitt eigið arkvík af póst-list og zines sem ég hafði sankað að mér er að mestu glatað. Ég var yngri og vitlausari og henti hlutum. Ég hef lært það síðan að það borgar sig ekki að henda neinu.

Hérna geturðu dundað þér vikum saman við að skoða tæplega 23.000 zines, þökk sé fólki sem veit að það borgar sig að varðveita menningararfinn, sama hversu smálegur og ómerkilegur hann virðist vera.
 
 

Smálegt

  • Hér er þjarkurinn New New York Times sem tístir þegar hann rekst á nýyrði í NYT. Honum er svo svarað af þessum þjarki sem tístir samhenginu sem orðið birtist í ásamt tengli á greinina og loks svarar svo þessi þjarkur með tíðni orðsins í n-gram gagnasettinu frá Google.
     
  • Internetið getur verið ágætt. Hér er skemmtileg grein með sögum fólks um ástir og vináttu sem internetið hjálpaði til við að skapa.
     
  • Kort af internetinu frá 1973.
     
  •  Ef ég væri að vinna á fjölmiðli, þá færi ég á ráðstefnuna EIJC (European Investigative Journalism Conference) & Dataharvest í Belgíu í maí.
     
  • Áhugaverð njósnasaga frá seinustu öld.
     
  • Fjöldi jarðarbúa sem er 65 ára og eldri er núna meiri en þeirra sem eru 5 ára og yngri. Það hefur aldrei gerst áður. Við Íslendingar erum alltaf á undan með allt og fórum framhjá þessum punkti árið 1978.
     
  • NASA hætti við fyrstu geimgönguna þar sem báðir geimfararnir (þeir eru víst oftast í pörum) eru konur. Ástæðan: Það gekk illa að útbúa geimbúning sem passaði. Mar Hicks bendir á kaldhæðnina í því.
     
  • Hér er rannsóknarskýrsla um það hvernig rússnesk stjórnvöld fikta í GPS kerfum. Kreisí stöff.


Góða helgi!

 

Hér eru eldri tölublöð. Hér er ég á twitter. Hér er einhverskonar vefur. Hér er netfangið mitt.
Þú getur sagt upp áskriftinni eða skráð þig hérna.

 

You just read issue #11 of Gögn. You can also browse the full archives of this newsletter.

Brought to you by Buttondown, the easiest way to start and grow your newsletter.