Maður er nefndur Metúsalem Jóhannsson og hefir lifsuppeldi sitt af víxlakaupum. M. J. hefir t. d. keypt 7000 kr. víxil, fulltryggðan, fyrir 4000 kr. Dæmi eru til þess, að hann hafi, við framlengingu, komizt upp i nokkuð á annað hundrað prósent í vexti á einu ári. Sem „skrautnúmeri“ af lágum vöxtum hefir hann látið þinglesa skuldabréfum með 14—16%!
M. J. tapaði fyrir skömmu rúml. 30 þús. kr. á einum „viðskiptavini“, af því að honum hafði orðið á óhapp í samhandi við víxil, og varð af þeim orsökum að ganga inn á að reikna með hæfilegum vaxtakjörum í stað þeirra, sem áður höfðu tíðkast í þeirra viðskiptum! Mikið af veltufé Metúsalems fer til að ljúka við húsabyggingar efnalítilla manna og hleypir drjúgum fram byggingarverðinu og húsaleigunni. Sumt fer til félitilla kaupmanna og ber ávöxt í verzlunarálagningunni á nauðsynjar almennings.
Þeir félagar Metúsalem og Pétur létu þetta náttúrulega ekki ótalið og í Alþýðublaðinu 8. nóvember (8 dögum síðar) birti Metúsalem athugasemd undir fyrirsögninni „Svar til Ara Þórðarsonar“. Þar eru stóru orðin ekki spöruð. Svarið hefst á þessu:
Alþekktur drykkjuræfill og viðskiftastigamaður, Ari nokkur Þórðarson, hefir fengið einhvern til að skrifa fyrir sig rakalausar lygar um mig og ímynduð viðskifti mín
Auk þess segir Metúsalem:
Af því að ég hefi lesið Dómasafn Landsyfirréttarins frá 1915, læt ég undir höfuð leggjast að kalla Ara æruleysingja fyrir lygar sínar um mig í áminnstu blaði, -því samanber nefnt nafn virðist æran ekki hafa íþyngt honum á umliðnum árum. Þetta er það einasta svar, sem Ari fær frá mér fyrir það, sem hann hefir látið skrifa fyrir sig um mig, og það, sem hann kann hér eftir að láta skrifa.
En það var ekki nóg. 11. nóvember, þremur dögum síðar, ritar Pétur Jakobsson í Alþýðublaðið aðra athugasemd. Þar þvertekur Pétur fyrir að stunda okurlánastarfsemi og tiltekur m.a. dæmi um að á forretningum sínum hafi hann tapað fé og spyr Ara:
Mun nú hr. A. Þ., þegar hann veit nú þetta, telja þetta gróðvænleg viðskifti fyrir mig og álíta mig hafa út úr þeim ílla fengið fé?
Ari Þórðarson lét ekki sitt eftir liggja í þessari deilu sem hann startaði. Að vísu dróst það nokkuð að hann kæmi sínum sjónarmiðum á framfæri í Alþyðublaðinu. Því réði tvennt: Landsþing ASÍ stóð fyrir dyrum og blaðið þurfti að fjalla um það og svo:
þegar þingfrjettirnar voru um garð gengnar, komu þessir ólukkans hvítliðar með kylfurnar og annað leikfang milli handa, og þá var um að gera fyrir Alþýðublaðið að reyna að kveða þá niður.
Þannig liðu dagarnir og að lokum heill mánuður og aldrei birtust svör Ara í Alþýðublaðinu. Og hvað er þá til ráða? Jú, náttúrulega að stofna fjölmiðil. Það var því 15. desember 1932 sem fyrsta tölublaðið af Okrarasvipunni, málgagni Ara Þórðarsonar, kom út.
Efni blaðsins er að burðum tvær svargreinar til þeirra Metúsalems og Péturs. Aukreitis eru þar auglýsingar um þorskalýsi og jólatré og ein skrítla sem hljómar svo:
Fyrir nokkrum árum hafði dómari nokkur í kaupstað hjer á landi sökudólg fyrir rjetti, en þótti sökudólgurinn eitthvað óþjáll og ekki svara sjer sem honum líkaði. Sinnaðist því dómaranum og varð þetta að orði „Þú ert verri en andskotinn, nærri því eins vondur og Metúsalem“
Ekki er hægt að merkja að Ara hafi verið umhugað um sættir við þá Metúsalem og Pétur. Svargreinarnar tvær gera í það minnsta lítið til þess að lægja öldurnar. Ef eitthvað er, þá bætti Ari í ásakanir sínar um okurlánastarfsemi þeirra félaga. Það var ljóst að málinu væri hvergi nærri lokið.
Líður nú rétt tæpur mánuður og nýtt ár gengur í garð. Reykvíkingum býðst þá að kaupa á 25 aura, fyrsta tölublað af blaðinu „Svindlarasvipan“ (LÝSING Á FJÁRPRETTUM OG FÓLSKUVERKUM ARA ÞÓRÐARSONAR). Útgefandi og ábyrgðarmaður var Ólafur Þorsteinsson, Grettisgötu 20A.
Ef Okrarasvipan var herská, þá var Svindlarasvipan hálfu verri. Blaðið er ekkert annað svívirðingar í garð Ara Þórðarsonar, og ekki af léttara taginu. Þar er t.a.m. birtur útdráttur úr dómi Landsréttar frá 1915 þar sem Ari Þórðarson var dæmdur í 5 daga fangelsi fyrir tilraun til nauðgunar. Svo eru hin ýmsustu fólskuuverk hans önnur tiltekin; hann á að hafi stolið hesti; okrað á víxlum; flekað ráðskonur og fleira og fleira. Tólf spurningum er beint til Ara, sú ellefta er svona:
Hver var það, sem seldi útsláttarlausum fjölskylduföður þrjúhundruð tylftir af getnaðarverjum?
Tæpum mánuði síðar, 3. febrúar 1933, koma svo út ný tölublöð af báðum þessum ritum. Þar er höggvið í sama knérunn á báðum vígstöðvum. Ari lýsir í blaði sínu hvernig Metúsalem á að hafa svindlað á Jóhönnu A. Jónsdóttur frá Ísafirði í viðskiptum með húseignina að Laugavegi 161. Svo er eitthvað fjallað um lager af skóm sem Metúsalem á að hafa fært til sín af Óðinstorginu og er á einhvern hátt óeðlilegt.
Í Svindlarasvipunni er mannkostum Ara Þórðarsonar áfram lýst. Þar er löng grein eftir útgefandann, Ólaf frá Þormóðsdal, sem sakar Ara um að hafa svikið út úr sér á ýmsan hátt um 9.700 krónur. Svo eru sögur af Ara og ekki síður nokkur kvæði. Höfundar þeirra eru tilteknir „Jack“ og „Sólon“. Hér er dæmi:
Ari skuldar öllum,
engum borgar neitt,
fær ei varizt föllum,
fjandi er það leitt.
Geti hann stolið gripum,
gerir Jóni skil.
Senn mun hýddur svipum
satans oní hyl.
Næsta leik áttu þeir Svindlarasvipumenn: 10 dögum síðar kom út þriðja tölublað blaðsins. Þar var á forsíðu þessi bálkur:
Að öðru leyti er efni blaðsins svipað og áður. Sögur af Ara, drykkju- og sviksemi hans í bland við andsvör varðandi þær ákúrur sem Ari hafði birt gegn Metúsalem og Pétri.
Það tók Ara Þórðarson ekki nema ellefu daga að svara þessu öllu, í þriðja tölublaði Okrarasvipunnar. Þar ber nú kannski hæst að Ari birtir bréf sitt til lögreglustjórans í Reykjavík þar sem hann fer fram á að ásakanir Ólafs í Svindlarasvipunni um fjársvik sín skuli rannsakaðar. Auk þess fer hann fram á að hótanir Ólafs í sinn garð séu rannsakaðar. Raunar þarf nokkuð frjálslegan lestur til að skilja Ólaf á þann hátt, en það ætti ekki að koma á óvart þegar þessi skrif öll eru skoðuð.
31. mars 1932 kom svo út fjórða tölublað Okrarasvipunnar. Efnið er, enn sem fyrr, okurlánabissness þeirra Metúsalems og Péturs. Það sem helst telst til tíðinda er lítil grein undir fyrirsögninni „Svindlararnir á undanhaldi“. Þar er því lýst yfir að ekki bara sé „Svindlarasvipan [...] dauð, [...] hrokkin upp af með þeim harmkvælum, að endemum sætir“, heldur séu þeir Metúsalem og Pétur hættir að okra.
Auk þess er í blaðinu auglýst kaffi-líki, sem er laust við hið alkunna eitur koffín, og er framleitt úr korni og ávöxtum. Það er erfitt að ímynda sér hvernig sá hryllingur hefur bragðast.
En okrararnir voru ekki alveg hættir. 18. apríl kom út fjórða og síðasta tölublað Svindlarasvipunnar. Þar er, auk krassandi sagna af fylleríum og „tittlingatísti“ Ara Þórðarsonar, birtur dómur aðstandenda útgáfunnar yfir Ara. Þar dæmist hann í 59 ára betrunarhússvinnu eða 57 ára (blaðsíðum eitt og þrjú ber ekki saman um niðurstöður dómsins sem settur var á ritstjórnarskrifstofum Svindlarasvipunnar).
En Ari átti eftir að eiga síðasta orðið, alveg eins og það fyrsta. Mánuði síðar, 26. maí, kemur út 5. tölublað Okrarasvipunnar. Fátt nýtt er í því blaði, en vel þess virði að lesa, ef fennt hefur yfir þekkingu lesenda á okri Metúsalems og ekki síst skósvindlinu við Óðinstorg.
Látum þetta nægja í bili, kannski sendi ég þér síðar eitthvað smávegis meira um þá Ara, Metúsalem og Pétur. En ég hvet þig til að renna yfir þessi níu tölublöð sem þeir saman sendu frá sér. Þau eru hin mesta skemmtun.
Hér eru eldri tölublöð. Hér er ég á twitter. Hér er einhverskonar vefur. Hér er netfangið mitt.
Þú getur sagt upp áskriftinni eða skráð þig hérna.