En tilhvers voru nú póstyfirvöld heimsins og hér heima að þessu brölti? Hvað eru póstnúmer eiginlega?
Til að svara fyrri spurningunni: póstnúmer voru viðbragð við síauknu magni pósts sem þurfti að flokka og koma á réttan stað. Í stað þess að flokkarar póstsins þyrftu að læra utan að heimilisföng og gatnaskipan í öllum krummaskuðum landsins, var nú hægt að gróf-flokka póst, koma honum á rétt pósthús og þar í framhaldinu að flokka hann niður á heimilisföng. Og þó að vél-flokkunartæki væru ekki til hér á landi þegar kerfið var tekið upp, þá var tilurð þess m.a. réttlætt með vísan í að í framtíðinni myndu vélar flokka póst og þá væri gott að hafa staðlaða kóða til að vinna eftir. Það gekk eftir, því í dag er mest allur póstur vél-flokkaður, í það minnsta á stórum hluta leiðar sinnar um póstkerfi heimsins.
Seinni spurningin er öllu flóknari. Einhvernvegin svona er hægt að skilgreina póstnúmer:
Póstnúmer er kóði sem hefur þann eina tilgang að aðstoða fólk og vélar við að koma pósti á réttan stað, svo hægt sé að afhenda hann viðtakanda.
Og þannig nota póstyfirvöld póstnúmer. En eins og oft gerist með tæknikerfi, þá hafa þau önnur hlutverk en þeim var upphaflega ætlað. Þannig fór fljótt að bera á því að póstnúmer væru notuð til að afmarka svæði landfræðilega. Þannig er oft talað um að íbúar í hinu og þessu póstnúmeri séu af hinu og þessu taginu, lýðfræðileg samsetning póstnúmera sé svona og hinsegin. Það er meiraðsegja þannig að sögulegar tímaraðir um íbúa Reykjavíkur eru oft eftir póstnúmerum. Og við fyrstu sýn ætti það nú bara að vera í lagi.
En málið vandast þegar kerfið er notað í þeim tilgangi, vegna þess að póstnúmer eru ekki óbreytanleg eða samfelldir flákar. Þau taka breytingum í takti við þarfir póstþjónustunnar og þau geta verið sett saman af mörgum bútum.
Tökum mörk póstnúmeranna 101 og 107, vestan við Suðurgötu sem dæmi.
Eins og sjá má þá fylgja mörkin ekki Hringbrautinni, eins og og kannski flest myndu telja eðlilegt. Það á enda við um flestar, ef ekki allar, aðrar skiptingar þessa svæðis. Þannig skiptir Hringbrautin Reykjavík í norður og suður kjördæmi við Alþingiskosningar og mörk skólahverfa í vesturbænum eru dregin um Hringbraut.
En þetta hefur ekki alltaf verið svona. Frá og með 1. desember, 2011 voru öll hús sem standa við Hringbraut og eru sunnan megin hennar, færð úr 107 yfir í 101. Enn lengur hefur það verið svo að að öll hús við Framnesveg eru í póstnúmeri 101, alveg óháð því hvort þau eru sunnan eða norðan megin við Hringbraut.
Annað dæmi um það hvernig póstnúmeraskiptingin ber þess merki að vera tæki til að koma pósti til skila, en ekki skipting lands í svæði, er hvernig Bústaðavegurinn er allur í 108, eins og má sjá hérna:
Lagt er til að borgarráð samþykki að farið sé á leit við póstnúmeranefnd Íslandspósts hf. að Vatnsmýrin fái póstnúmerið 102. Lagt er til að sá hluti póstnúmers 101 sem er sunnan Hringbrautar breytist í póstnúmerið 102 og að mörk við póstnúmer 107 og 105 haldist óbreytt.
Við sjáum strax að eins og tillagan er orðuð þýddi þetta flutning heimilisfanga við Framnesveg og sunnan Hringbrautar í póstnúmer, 102. Auk þess er póstnúmer 102 nú þegar til. Í því er eitt hús, póstflokkunarmiðstöð Íslandspósts á Stórhöfða 32. Þetta er reyndar ekki ný tillaga, því á fundi borgarráðs 10. desember, 2015, var eftirfarandi tillaga samþykkt:
Lagt er til að borgarráð samþykki að samráð verði haft um þá tillögu að póstnúmerinu 101 verði skipt í tvennt og að Vatnsmýrin fái póstnúmerið 102. Málið heyrir undir póstnúmeranefnd Íslandspósts hf. Vísað er til hjálagðs bréfs sviðsstjóra umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar þar sem færður er nánari rökstuðningur fyrir því að í ljósi umfangs póstnúmers 101, landfræðilega og m.t.t. til byggingarmagns og uppbyggingar framundan, sé tímabært að skipta póstnúmerinu upp í tvennt. Lagt er til að sá hluti póstnúmers 101 sem er sunnan Hringbrautar breytist í póstnúmerið 102 og að mörk við póstnúmer 107 og 105 haldist óbreytt. Lagt er til að erindið verði sent til umsagnar Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík, Icelandair, Knattspyrnufélagsins Vals, Valsmanna hf., hverfisráðs Vesturbæjar og Prýðifélagsins Skjaldar.
Lítið var gert með þetta, þar til í nóvember og desember á seinasta ári, þegar óskað var eftir umsögnum frá hagaðilum um þessar hugmyndir borgarinnar. Umsagnir bárust frá knattspyrnufélaginu Val, Valsmönnum hf., Hlíðarfæti ehf., lóðarhöfum E-reitar og Prýðisfélaginu Skyldi. Allar voru þær jákvæðar, nema sú frá Prýðsifélaginu Skyldi, sem eru íbúasamtök í Skerjafirði.
Starfsstöð Pósts og síma á BSÍ var eina húsið í póstnúmeri 106.
Póstnúmerið var aflagt þegar henni var lokað
Kort Íslandspóst með póstnúmerum.
Gagnaskrár Íslandspósts: götuskrá og póstnúmeraskrá.