Ingibjørg Oladottir Viborg, født 24 mar 1836 i Reykjafjord, Island, død 17 apr 1913 i Store Magleby
Í Íslendingabók er ein Ingibjörg Óladóttir fædd 1835. Um hana segir þar:
Var í Ófeigsfirði, Árnessókn, Strand. 1845. Vinnukona í Reykjarfirði í Árnessókn 1858. Fór 1859 frá Reykjarfirði í Árnessókn til Kaupmannahafnar. Var í Store Magleby, Sokkelund, Kaupmannahöfn, Danmörku 1870, 1880 og 1890. Maki 16.11.1858: Rasmus Petersen f.1835 í Danmörku, beykir.
Æsast nú leikar. Rasmus þessi var semsagt í Reykjafirði 1858, kvæntist þar Ingibjörgu og flutti svo með hana og nýfædda dóttur þeirra (og einnig, þó það komi ekki fram þarna, fjögurra ára dóttur hennar, Ólínu Guðrúnu Daníelsdóttur) til Kaupmannahafnar 1859.
Hversu líklegt er að í Reykjafirði 1859 hafi verið danskur beykir, fæddur 1836, að nafni Rasmus Petersen, og svo ári síðar dúkki jafnaldri hans og nafni í sama yrki upp á Eskifirði? Það er reyndar vonlaust að ætla heiminum að vera lausum við tilviljanir, en þetta var eitthvað, einhverskonar spor.
Glöggir lesendur átta sig hinsvegar á því að varla var þessi Rasmus bæði í Kaupmannahöfn 1860 og í verslun Örum og Wulf á Eskifirði. Það gerði undirritaður einnig og fylltist ákveðnu og enn meira vonleysi yfir þessari vegferð. En svo rann upp ljós.
Manntalið í Kaupmannahöfn var tekið 1. febrúar en það íslenska þann 1. október.
Og þá er komin mynd á kenninguna: Rasmus Petersen var í Reykjafirði 1858. Hann giftist þar Ingibjörgu Óladóttur og flutti með henni og börnum, þar á meðal Júlíönu dóttur þeirra, til Kaupmannahafnar. Um vorið 1860 munstrar hann sig í vinnu hjá Örum og Wulf, sem af einhverjum ástæðum, kannski þeim að hann hafði áður verið á Íslandi, senda hann til Eskifjarðar. Þar hittir hann Ingibjörgu Einarsdóttur og getur henni barn, sem svo er nefnt Júlíana. Svo fer hann aftur til Kaupmannahafnar til Ingibjargar Óladóttur, eiginkonu sinnar, og þriggja barna þeirra.
Trúlegt? Því ekki?
Ófullkomið ættartré Rasmus Petersen
Rasmus þessi Petersen bjó svo með Ingibjörgu sinni á Amager fram til dauðadags, þann 6. apríl 1924. Ingibjörg Óladóttir lést 11 árum fyrr, 17. apríl 1913. Af þeim er kominn nokkur ættbogi, flestöll þeirra héldu tryggð við Amager og afkomendur þeirra búa enn þar.
Þetta er kenning. Ekki sú vitlausasta, held ég. Kannski geri ég mér einhverntíman ferð til Árósa þar sem skjalasafn Örum og Wulf er geymt. Kannski leynist þar eitthvað sem sannar eða afsannar þessa kenningu.
Að lokum. Það er ekki til mynd af Ingibjörgu langalangalangömmu minni. En það er til mynd af Júlíönu Rasmusdóttur langalangömmu minni. Hún er hér lengst til hægri.
Guðgeir Björnsson, Kristín Elsabet Ásmundsdóttir, María Klausen og Júlíana Rasmusdóttir á Eskifirði
Hafðu það gott í næstu viku!
You just read issue #15 of Gögn. You can also browse the full archives of this newsletter.