Reykjavík árið 1801 og annað áhugavert
Reykjavík, 1801
Þann 29 september 1801 komu til landsins tveir norskir liðsforingjar á vegum danska Rentukammersins. Fengu þeir herbergi í Hegningarhúsinu við Lækjargötu. Þetta voru þeir Ole Ohlsen og Ole Mentzen Aanum sem höfðu verið sendir hingað til að strandmæla landið, en þau sjókort sem höfuð verið gerð 1776-1777 þóttu ekki nákvæm. Auk þess áttu Ólarnir tveir að skila af sér nákvæmum uppdrætti af Reykjavíkurkaupstað. Þeir hófust handa við þá kortagerð 10. október og luku henni þann 23. sama mánaðar. Að því loknu snéru þeir sér að því að mæla strandlengjuna.
Verkið gekk hægt sökum veðurs og þess að heimamenn voru tregir til aðstoðar. Þorvaldur Thoroddsen, sem rekur þessar mælingar vel í bók sinni Landfræðissaga Íslands, greinir frá því að svo illa hafi gengið að fá aðstoð að "Ohlsen sjálfur með hinum danska þjóni sínum [varð] að bera verkfærin".
Auk þess þótti þeim í Reykjavík vera helst til mikil dýrtið. Aanum segir að á fimm mánaða tíma hafi hann orðið að kaupa mó fyrir 80 Ríkisdali. Pund af brauði hafi kostað 16 skildinga, 5 fjórðungar af smjöri 20 Ríkisdali, pottur af mjólk 10-16 skildinga og pund af kjöti 16 skildinga. Allt eins og venjulega.
Hér verður saga þessara strandmælinga ekki rakin frekar, en ég mæli með lestri á bók Þorvaldar. Hún er ljósmynduð hér og er bæði skemmtileg og fróðleg.
En hvað með kortið sem þeir félagar teiknuðu af Reykjavík? Það eru þrjár gerðir þess varðveittar. Tvö snúa "öfugt", það er suður snýr upp og austur er til vinstri. Landsbókasafnið varðveitir þau og hefur gert þau aðgengileg hér. Í bók sinni Bidrag til en historisk-topografisk beskrivelse af Island sem kom út 1877 birti Kristian Kaalund útgáfu sem er mjög snotur. Hún er örlítið ítarlegri en sú hér að ofan, en er augljóslega byggð á einni af þeim sem Landsbókasafnið varðveitir. Google hefur af myndarskap sínum ljósmyndað verk Kaalunds en sleppir kortunum. Það gerir hinsvegar ekki British Library og hér má sjá þá útgáfu kortsins (og hlaða niður allir bókinni, ef vill).
Það má svo fræðast enn betur um þessi kort í bók Klemens Jónssonar, Saga Reykjavíkur, og að sjálfsögðu í hinu frábæra riti Kortasaga Íslands eftir Harald Sigurðsson. Hvorugar þeirra eru þó til ljóslesnar, en öll betri bókasöfn eiga þau til. Yngri kort af Reykjavík má svo sjá hér í boði Reykjavíkurborgar.
Og allt er þetta nú bara langur inngangur til þess að koma því að, að á vefuppboði hjá Gallerí Fold er nú til sölu eintak af þessu korti. Ekki frumrit, en fallegt eintak. Hvort það er 40.000 króna virði eins og uppboðshaldari vill meina, er önnur saga.
Eitt og annað
Hér er áhugaverð frásögn af því hvernig landakort hafa áhrif á umhverfið og hvernig landfræðileg saga verður til: How Google’s Bad Data Wiped a Neighborhood off the Map.Maps don’t just show the world — they change the world,” says the geographer Mark Graham. “They affect how we interact with the world and understand the world. In doing so, they shape the world itself.
Það er svo margt skrýtið við kapítalismann. Hér er grein um tvö fyrirtæki sem hafa hagnast á því að vera lítil og í andstöðu við stærri fyrirtæki á markaði. Bókstaflegri andstöðu: How to get ahead by provoking big business.
Chuck D er að setja saman átta þátta hlaðvarp um sögu Clash. Gæti það verið betra? Ég hef ekki hlustað vegna þess að ég á í siðferðislegri klemmu með hvernig því er dreift. Eina leiðin til að hlusta er í gegnum Spotify. Hlaðvörp hafa hingað til verið einn af fáum kimum internetsins sem hefur verið fyrir utan múra stórfyrirtækjanna. Dreifing hlaðvarpsefnis byggir á RSS og hver sem er hefur getað notað hvaða forrit (eða smíðað sitt eigið!) til að sækja efni. En nú ætlar Spotify sér að taka yfir þennan markað, m.a. með því að kaupa útgefandann Gimlet. Afleiðingin verður sú að efni læsist á bakvið múra og það verður erfiðara fyrir einyrkja, furðufugla og bara alla að koma efni á framfæri.
En kannski skiptir það engu máli hvort að ég gefist upp og hlusti á hlaðvarpið hans Chuck D á Spotify. Kannski er þetta bara enn ein óstöðvandi afleiðing kapítalismans. Sjáum til.
Skrítnasta frétt undanfarinna daga hlýtur að vera sú að að bandaríski forsetaframbjóðandinn Beto O'Rourke hafi verið meðlimur í hakkara kollektívinu Cult of the Dead Cow. Gott hjá honum.
Að lokum: Hér er stórkostlegur vefur með efni frá sænskum söfnum. Þar má t.d. finna þessa mynd frá 1945 af sænskum bátasmiðum byggja það sem þar nefnist Islandsbåt en hér heima var kallað Svíþjóðarbátur. Kannski eru þetta borð í Hafdísi IS-75, en hún var byggð í Sjötorps varv og sjósett 1946. Meira síðar um Svíþjóðarbátana.
Hafðu það sem allra best!
Don't miss what's next. Subscribe to Gögn: