Nov. 15, 2018, midnight

Stafræn réttindi, dautt fólk, listaverk og kynjaðar fréttir

Gögn

Stafræn réttindi

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs, sótti í vikunni samráðsfund ýmissa borga í Sharing Cities verkefninu. Yfirlýsingu fundarins má lesa hér.

Athyglisverður er kaflinn um umráðarétt yfir gögnum og stafræn réttindi borgara. Hann er svona í heild sinni:
Að standa vörð um stafræn réttindi borgaranna með innleiðingu reglna um umráðarétt yfir gögnum og siðlega gagnameðhöndlun (til dæmis að því er varðar friðhelgi einkalífs, öryggi, ákvörðunarrétt yfir upplýsingum og hlutleysi upplýsinga, þar sem borgarar fá að ráða stafrænu auðkenni sínu, hver notar gögnin þeirra á netinu og í hvaða tilgangi). Að stuðla að framgangi stefnumála þar sem markmiðið er að borgararnir sjálfir ráði yfir persónupplýsingum sínum svo þær séu ekki misnotaðar eða þeim safnað eða deilt án beins samþykkis viðkomandi. Að tryggja að stafrænir vettvangar séu ábyrgir fyrir gagnavinnslu og gefi notendum umráðarétt yfir flutningi eigin gagna, stafrænu auðkenni sínu og stafrænu orðspori. Að tryggja að borgaryfirvöld hafi aðgang að viðkomandi ópersónugreinanlegum gögnum frá fyrirtækjum sem starfa á þeirra yfirráðasvæði (svo sem upplýsingum um samgöngur, öryggismál, atvinnumál og öðrum upplýsingum sem varða almannahag). Að styðja við þá hugmynd að borgargögn skuli nýta til að leysa vandamál í borgarumhverfinu, almenningi til heilla.
Auk þess þá skuldbinda borgirnar sig til þess að reyna að koma böndum á hin svokölluðu deilihagkerfi (AirBnb, Uber, Lyft o.s.frv). Meira um það síðar.
 

Dautt fólk

Árið 2015 garfaði Paul Ford í hinni bandarísku Death Master File og skrifaði stórfína grein í New Republic. Skráin inniheldur nöfn og aðrar upplýsingar um bandaríska ríkisborgara sem hafa haft þarlenda kennitölu og verið skráðir dauðir. Hér má fletta í skránum og hér er hægt að sækja útgáfu frá 2013.

Hér á landi er haldið utan um dauða fólks í þjóðskrá samkvæmt reglum þeirrar stofnunar. Auk þess heldur Kirkjugarðasamband Íslands úti vefnum gardur.is, þar sem kirkjugarðar landsins skrá greftranir. Þar eru núna skráðir 149323 einstaklingar í frekar ófullkomnum gagnagrunni. Það mætti þó með smá fyrirhöfn taka saman áhugaverða tölfræði upp úr þeim grunni, ef einhver nennir. Til dæmis væri áhugavert að greina stöðu þeirra sem eru skráðir. Hvað eru margar húsmæður? Hversu margar konur eru skráðar bóndi? Hvernig hefur tíðni nafna breyst í gegnum söguna?
 

List

"Ef þetta er list, þá er ég pissed", sagði einhver. Fólkið á bak við Artnome vefinn er að gera flotta hluti þegar kemur að því að greina listaheiminn. Hér er mjög svo áhugaverð grein: Inventing The Future Of Art Analytics.

Hér heima heldur Gallerí Fold reglulega uppboð á listaverkum, bæði á netinu og í húsakynnum sínum á Rauðarárstíg. Niðurstöður vefuppboðanna eru öllum opnar og kaupendur eru auðkenndir með númeri. Hér má t.d. sjá að kaupandi númer 5500 eignaðist málverk Kristínar Jónsdóttur af Dyrahólaey fyrir 510.000 kr. Það gæti verið áhugavert að safna saman öllum niðurstöðum þessara uppboða og búa til einhverskonar mynd af þeim hópi sem kaupir listaverk á vefuppboðum Gallerís Foldar. Eru margir kaupendur að bjóða í verk, eða er það lítill hópur? Er algengt að sami kaupandi setji háaar fjárhæðir í verk? Hversu nærri er verðmat gallerísins því verði sem verkin seljast svo á?
 


Kynjaðar fréttir

Blaðamenn Financial Times fá nú hjálp frá þjarka til að reyna að jafna kynjahlutföll í umfjöllunum sínum. Þjarkinn nýtir sér tólið Gendermeme til að greina kyn fólks sem kemur fyrir í texta. Gendermeme kann ekki íslensku, en það kann hinsvegar Greynir.

You just read issue #22 of Gögn. You can also browse the full archives of this newsletter.

Brought to you by Buttondown, the easiest way to start and grow your newsletter.