Hæ!
Í þetta skiptið sendi ég ykkur samtíning héðan og þaðan um það sem mér hefur þótt áhugavert undanfarið. Það er mánudagur. Þvílík gleði!
Leiðabækur Strætó
Í tilefni safnanætur Reykjavíkur 8. febrúar síðastliðinn birti Borgarskjalsafnið leiðabækur Strætisvagna Reykjavíkur, allt frá upphafsárinu 1932 og til 2008, samtals 11 skjöl. Þar má meðal annars finna þetta fallega kort frá 1932.
Í leiðabókinni 1985 var það gert alveg skýrt að yður var bannað að flytja málningu með vögnunum í opnum ílátum.
Tæknisaga
Fyrirtækjaskrár
OpenCorporates hefur um nokkuð skeið birt gögn og skráningar úr fjölmörgum fyrirtækjaskrám heimsins. Nú hefur
þýska fyrirtækjaskráin bæst við. Þetta er töluverð viðbót þar sem skráin nær yfir rúmlega 5 milljónir fyrirtækja. Það er áhugavert að kynna sér
hvernig OpenCorporates safnaði þessum gögnum. Mestur hlutinn kemur úr lögbirtingarblöðum þeirra Þjóðverja. Það hefur lengi farið í taugarnar á mér hversu lélegt aðgengi er að hinu
íslenska Lögbirtingarblaði. Fyrir Alþingi liggur reyndar
lagafrumvarp um Stjórnartíðindi og Lögbirtingarblaðið sem kveður á um gjaldfrjálsa rafræna útgáfu. Hvort eitthvað verður af því er svo önnur saga.
Ferðamálatölfræði
Opið bókhald og öryggi
Mælaborð ferðaþjónustunnar keyrir á
Microsoft PowerBI hugbúnaði. Það er hugbúnaður af tegund sem stundum er nefnt viðskiptagreindarhugbúnaður. Aðrir (ég) kalla þetta Excel fyrir millistjórnendur. Í öllu falli var PowerBI í sviðsljósinu nýverið þegar Persónuvernd úrskurðaði loks umöryggisbrest á notkun þriggja sveitarfélaga á hugbúnaðinum til birtingu upplýsinga úr bókhaldi sínu.
Seltjarnarnesbær,
Garðabær og
Akraneskaupstaður fengu öll þann úrskurð að birting persónugreinanlegra upplýsinga í þeim kerfum hefði ekki veirð í samræmi við lög. Sveitarfélögunum er töluverð vorkunn, þar sem þau keyptu kerfið og þjónustu af KPMG, sem virðist ekki hafa umgengist gögnin af tilhlýðilegri virðingu. Ekki það að það er að sjálfsögðu á ábyrgð sveitarfélagsins að tryggja að vinnsluaðilar sinni sínu hlutverki vel. En úrskurðurnir eru áhugaverðir. Ekki síst vegna þess að þeir veita innsýn í hversu veikir opinberir aðilar geta verið í samskiptum við einkageirann, sérstaklega í tæknimálum.
Apollo 11
Í ár verða 50 ár síðan Apollo 11 lenti á tunglinu (strangt til tekið lenti Apollo 11 ekkert á tunglinu, en þið vitið hvað ég á við). Í safni NASA eru
allskonar myndir og skjöl frá leiðangrinum. M.a. þetta kort sem sýnir gönguleiðir geimfaranna á yfirborði tunglsins í samanburði við fótboltavöll. Ég labba meira í vinnunni á hverjum degi, og sit ég þó bara fyrir framan skjá og fikta í Excel.
Hér eru eldri tölublöð.
Hér er ég á twitter.
Hér er einhverskonar vefur.
Hér er netfangið mitt.